Félagið

Dáleiðslufélag Íslands stendur vörð um þrjár megináherslur; þekkingu, þjálfun og ábyrgð. Þetta gerum við með því að hafa einungis innan okkar vébanda þær fagstéttir heilbrigðisstarfsmanna er hafa um margra ára skeið tileinkað sér þekkingu og þjálfun byggða á reynsluvísindum.

Samhliða hafa þessar stéttir fengið áralanga þjálfun undir handleiðslu og undirgengist siðareglur sem hver þessara stétta skuldbindur sig gagnvart. Viðfangsefni þessara fagstétta er ólíkt þótt allar eigi það sameiginlegt að liðsinna þeim sem glíma við flókna stöðu, erfiða líðan eða kvíðavænleg viðfangsefni.

Þegar kemur að því að beita aðferðum eins og dáleiðslu felst fagmennskan ekki síst í því að nota dáleiðsluna í þeim viðfangsefnum og á þeim grunni sem menn hafa lært til. Þannig kann til dæmis ljósmóðir að nota dáleiðslu í tengslum við fæðingar, sálfræðingur eða geðlæknir í vinnu með kvíða eða þunglyndi, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraþjálfari sem hluta af verkjameðferð, félagsráðgjafi sems tyrk og stuðning til sjálfseflingar og tannlæknir við deyfingar. Fagmennska er ekki að vera öllum allt heldur að byggja vinnu sína á traustum grunni, þekkja það flækjustig sem vinna með öðru fólki felur í sér og þekkja sín takmörk.

Ofan á áðurnefndan grunn fagmennsku kemur margvíslegt nám og þjálfun sem félagar í D.Í. hafa og snýr sérstaklega að dáleiðslu. Markmið félagsins er að efla þennan þátt enn frekar og tryggja þannig fyrsta flokks þjónustu fyrir skjólstæðinga okkar. Frá árinu 2013 höfum við boðið félagsmönnum upp á mjög yfirgripsmikið og heildstætt nám sem við gerum að bæði fyrirmynd og viðmiði fyrir þá þjálfun sem félagsmenn þurfa að hafa. Dáleiðsla hefur lengi haft yfir sér dulúðugan blæ og hún vekur forvitni margra. Alltaf eru einhverjir sem reyna  að tileinka sér hana án þess að hafa þann grunn eða samhengi sem við setjum undir hatt fagmennsku. Þetta þykir okkur miður. Það er hins vegar sannfæring okkar  að sú áhersla sem við leggjum á fagmennsku muni skila okkur og skjólstæðingum okkar bæði betra félagi og betri þjónustu.

Dáleiðslufélag Íslands er í  alþjóðasamtökum  dáleiðslufélaga og hefur gert siðareglur þeirra að sínum. Á vegum alþjóðasamtaka dáleiðslufélaga eru haldnar reglulegar ráðstefnur sem félögum í Dáleiðslufélagi Íslands stendur til boða að sækja. Þá tilheyra margir félagar Dáleiðslufélags Íslands evrópusamtökum dáleiðslufélaga.