JAKOB V. JÓNASSON, GEÐLÆKNIR
Maðurinn – ævin – störfin
Erindi flutt á 90 ára fæðingarafmæli. Nokkuð stytt.
Jakob Valdemar Jónasson fæddist 28. október 1920 á Geirastöðum í Þingi í Austur – Húnavatnssýslu. Hann lést 8. júlí 2003 í Reykjavík. Bærinn Geirastaðir var torfbær og er nú horfinn. Hann stóð milli Húnavatns og Hópsins, um tveim km norðan Þingeyrarkirkju.
Móðir Jakobs, Aðalbjörg Signý Valdemarsdóttir, lést úr berklum eftir langa spítalavist er hann var sjö ára en Finnbogi bróðir hans fjögurra ára. Faðir þeirra, Jónas Stefánsson, brá þá búi og flutti til Akureyrar með bræðurna en bærinn fór í eyði. Á Akureyri leigði hann íbúð og vann almenn störf. Konan er íbúðina átti, Jakobína Jónasdóttir, varð ráðskona á heimilinu og giftust þau Jónas síðar. Mat Jakob stjúpmóður sína ætíð mikils sem mynduga, umhyggjusama konu. Mun hún hafa ráðið miklu um að bræðurnir voru settir til mennta.
Jakob lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942. Hann var góður námsmaður, íslenska, saga og tungumál voru hans uppáhaldsgreinar. Af kennurum skólans minntist hann oftast ,,Sigga Gráa”, Sigurðar Guðmundssonar skólameistara, sem var mikill íslensku- og sögumaður. Mat og mikils enskukennarann, Sigurð Líndal Pálsson. Jakob var góður í ensku og sumarlangt túlkur breska setuliðsins á Skálum á Langanesi.
Jakob fór í læknadeild Háskóla Íslands og lauk kandidatsprófi vorið 1951. Að prófi loknu hélt hann vestur í Ísafjarðardjúp að sinna héraðsskyldu. Hann sat í Súðavík og þjónaði Ögurhéraði sem náði yfir Inndjúpið allt en auk þess Hesteyrarhéraði í Jökulfjörðum sem þá voru í byggð. Eftir hálfs árs störf í héraði lauk hann kandídatsnáminu á Landakotsspítala og á Fæðingardeild Landspítalans. Hann fékk lækningaleyfi í febrúar 1953 og hélt í apríl til Englands til framhaldsnáms í geðlækningum og kvæntist um vorið konu sinni þýskættaðri, Christel Hildegard, er hafði starfað á Landspítalanum.
Jakob réðst sem aðstoðarlæknir við Maudsley and The Betlem Royal Hospital í London. Namþar í rúmt ár og þar af 6 mánuði við Geðverndarstöð barna. Annað ár var hann á Long Grove Hospital í Epsom, Surrey. Einn kennara hans í Englandi var Anna Freud, dóttir Sigmundar Freud og vel þekkt sem frumkvöðull í barnageðlækningum.
Árið 1955 hélt Jakob til Svíþjóðar með stækkandi fjölskyldu, komin tvö börn. Dvaldi þar fimm ár á fimm stöðum við störf og nám í geðlækningum og taugalækningum. Skrifaði sérfræðiritgerð sem á sænsku nefndist ,,Lätta depressionstilstånd i involutionsperioden”. Birtist ritgerðin árið 1960 í tímaritinu Acta psychiatrica et neurologica Scandinavica.
Jakob kom heim frá námi 1960, setti upp lækningastofu og sinnti einnig hlutastörfum. Varð sérfræðingur við Geðverndardeild barna á Heilsuverndarstöðinni, var ráðgefandi við Vinnuheimilið að Reykjalundi sem Reykjalundur þá hét, einnig við Sálfræðideild skóla í Reykjavík 1961-1963. Hann varð aðstoðaryfirlæknir á Kleppi í júní 1963 en nokkur næstu ár vann hann einnig á nýstofnaðri Geðdeild Borgarspítalans. Langmest af starfi Jakobs sem spítalalæknir var þó unnið á Kleppsspítalanum og síðast á göngudeild Geðdeildar Landspítalans. Jakob vann gjarnan á stofu samhliða spítalastörfum og mest síðustu árin. Við starfslok á Landspítala um sjötugt óskaði samstarfsfólk þess að hann héldi áfram að kenna vinsæl námskeið í slökun og dáleiðslu. Margt fagfólk innan spítalans og utan sótti námskeiðin næstu árin og tileinkaði sér þekkingu hans og aðferðir.
Námsferill Jakobs varð langur. Má segja að síðari hluti hans hafi byrjað eftir 1964. Í Svíþjóð hafði hann nokkuð kynnst dáleiðslu en 1964 fór hann til Austurríkis á námskeið í dáleiðslu hjá Þjóðverja að nafni Schatzing. Árið 1968 fékk hann, að tilstuðlan Tómasar Helgasonar prófessors, námsstyrk á vegum Evrópuráðsins og tók tveggja mánaða þjálfunarnám í dáleiðslu á Polyklinik für Psykoterapie í Mainz í Þýskalandi hjá prófessor Dietrich Langen.
Sá er þetta ritar heyrði fyrst talað um dáleiðslu til lækninga árið 1969 en dáleiðsla á sviði til skemmtunar og fíflskapar var hinsvegar vel kunn. Á fámennum læknafundi á Kleppi greindi Jakob frá námi sínu í Mainz og er frásögnin minnisstæð. Jakob var lágmæltur, kíminn og áheyrilegur og menn hlýddu á sem í leiðslu. Prófessor Langen lýsti hann sem vinnuþjarki er dáleiddi hvern sjúklinginn eftir annan, drakk kaffi á milli og notaði hina evrópsku klassísku dáleiðslu þar sem dávaldurinn hefur alla stjórn.
Prófessorinn setti sjúklingana í trans með djúpri slökun. Hvað hann síðan gerði man ég óglöggt en því betur lýsingu Jakobs á því er hann sjálfur sem nemandi fór í dáleiðslu hjá prófessornum. Hann kvaðst hafa upplifað mikið öryggi og djúpa vellíðan sem hélt áfram eftir að hann kom út á götu. Fannst honum sem fæturnir snertu varla götuna.
Oft síðar nefndi Jakob að margir sjúklingar og margt annað fólk hefði ekki fundið vellíðan árum saman og lagði áherslu á hve mikils virði það væri að þekkja vellíðan slökunar. Þótt Jakob kynni margar aðferðir til að framkalla hið breytta vitundarástand sem dáleiðsla er, notaði hann oftast slökunina sem innleiðslu í trans og hann kenndi sjúklingum aðferðina. Orðið trans var honum tamt. Hann taldi að íslenska orðið og hugtakið leiðslaværi jafngilt og trans um dáleiðsluástand. Orðin hefðu bæði jákvæða merkingu og trans færi vel í íslensku. Hann vildi gjarnan kalla aðferð sínaleiðsluslökun en það orð festist þó ekki. Kjarninn í aðferð Jakobs var sá að kenna fólki að framkalla vellíðan til að yfirvinna og eyða vanlíðan.
Hvað gerði Jakob sérstakan og hvernig vann hann? Svör við því segja jafnframt söguna um fæðingu Dáleiðslufélags Íslands og aukinn áhuga á dáleiðslu hérlendis.
Jakob var vel að sér í geðlæknisfræði og sálfræði. Hann kunni góð skil á kenningum sálgreiningar en var jafnframt áhugasamur um flest annað s. s. atferlisfræði, hópmeðferð og fjölskyldumeðferð. Hafði mikla reynslu í notkun raflækninga og kenndi öðrum. Hann notaði geðlyfin, þó ætíð með varfærni. Jakob las alltaf mikið, einnig bókmenntir. Taldi að Dostojevski væri geðlæknum ekki síðri lesning til mannskilnings en fagritin. Íslendingasögurnar kunni hann, vitnaði í þær og dáði dáleiðsluaðferð Njáls á Bergþórshvoli.
Á spítaladeildinni kenndi Jakob sjúklingunum slökun vikulega í hópi. Hann notaði dáleiðsluaðferðina beint og óbeint í hópmeðferð og fjölskyldumeðferð þannig að hann bað fólk í byrjun fundar að staldra við, lygna aftur augum, staðsetja sig í sjálfu sér, í stólnum og í herberginu áður en vinnan byrjaði. Allir skyldu hafa rétt og öryggi.
Jakob kynnti læknanemum, hjúkrunarnemum og öðru starfsfólki dáleiðslu. Bar kynning súraunar keim af sviðsdáleiðslu. Hann kynnti fyrst stuttlega eðli dáleiðslu. Dáleiddi síðan einhvern sjálfboðaliða með slökun og sýndi að hann gæti látið fólk gera ýmsa skrítna hluti eftir að það vaknaði úr transinum, t.d. að fara fram í kaffistofu og sækja handklæðið sem þar var. Aldrei gerði hann neinn að fífli og var mjög á móti sviðsdáleiðslu almennt. Fræðslan vakti áhuga og leiðrétti fordóma og misskilning um dáleiðslu til lækninga.
Kringum Jakob var alltaf andrúmsloft fræðslu. Hann hafði áhuga á því sem aðrir höfðu lært og hvatti þá til að láta ljós sitt skína. Um 1980 voru fáeinir farnir að prófa að nota dáleiðslu og fengu handleiðslu Jakobs. Árið 1984 kom sálfræðingur frá námi í Bandaríkjunum sem hafði kynnst fræðum Miltons Eriksons og sagði sögur um óvenjulegar aðferðir vestan að. Þetta var Hörður Þorgilsson síðar formaður Dáleiðslufélags Íslands. Örvaði það umræðuna. 1988 fórum við nokkur til San Fransisco á dáleiðsluþing. Hittum þar Ernest Lawrence Rossi og Lars- Eric Unestahl sem síðar komu báðir til Íslands með fyrirlestra og námskeið.
Um 1990 hóf Jakob að halda regluleg námskeið fyrir starfsfólk í geðheilbrigðisþjónustu. Var reynt að stofna dáleiðslufélag sem þó starfaði takmarkað. Allt snerist í kringum Jakob. Hann hélt einfaldlega áfram að kenna áhugasömum nemendum.
Árið 1990 fór hópur á alþjóðlegt dáleiðsluþing til Konstans við Bodenvatnið í Þýskalandi. Var Jakob með í för sem einskonar óformlegur fararstjóri og einnigí hliðstæðri námsferð til Hamborgar 1994.
Nokkir fóru til Fönix í Arizona í formlegt nám í dáleiðslu við Milton Erickson stofnunina og á þing sem sú stofnun heldur annað hvert ár til kynningar á flestum formum meðferðar í sálfræði og geðlækningum.
Stjörnur af þessum þingum komu hingað og víkkaði það sjóndeildarhringinn. Rossi hélt fjölsótt fjögurra daga námskeið 1992 og kenndi m.a. endurinnrömmun minninga. Lars-Eric Uneståhl kynnti aðferðir til að þjálfa og leiðbeina íþróttamönnum. Michael D. Yapko hélt þrjú námskeið árin 1998, 2000 og 2002, öll mjög vel sótt.
Þannig fjölgaði fólki sem fékk áhuga á að nota dáleiðslu í vinnu sinni. Í þeim hópi voru sálfræðingar, félagsráðgjafar, læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, ljósmæður og fleiri.
Á áttræðisafmæli Jakobs árið 2000 fékk hann að gjöf skjal með undirritun fimmtán nemenda.Var þar heitstrenging undirritaðra að vinna að framgangi dáleiðslu til lækninga á Íslandi. Skjal þetta varð síðar efnislega stefnuyfirlýsing Dáleiðslufélags Íslands .
Dáleiðslufélag Íslands var svo formlega stofnað í maí 2001 með fyrrnefnda stefnu. Einnig skyldi það halda utan um námskeiðahald, fundi, fræðsluefni og annað sem einstakligar höfðu annast áður. Félagið hefur fimm manna stjórn og félagar hafa verið um 60.
Jakob Jónasson átti fjölskyldu. Kona hans, Christel Hildegaard var jafnaldra hans, dóttir Augusts nuddlæknis í Königsberg í Þýskalandi. Fluttist hún til Íslands skömmu eftir stríð. Þau hjón eignuðust tvö börn, Hildigerði 1954 sem er félagsráðgjafi í Svíþjóð og Finnboga 1956 sem er taugasjúkdómalæknir. Kona Jakobs var myndug húsmóðir og hafði Jakob gott næði til að iðka sín fræði heima í skrifstofu sinni.
En stórfjölskylda Jakobs voru hinir mörgu nemendur sem veittu honum næringu með félagsskap, áhuga og aðdáun. Kona Jakobs hélt heilsu fram undir aldamót en var á stofnun örfá ár vegna minnissjúkdóms. Jakob hélt andlegum kröftum til æviloka 2003.
Hljóðlátur frumkvöðull var Jakob einnig áöðru sviði. Hann átti íslenskan hund meðan hundahald var bannað í Reykjavík. Það komþannig til að kona kom ástofu til Jakobs sem var aðflutt í borgina, döpur mjög. Fór aldrei út,var einmana og saknaði þess mest að hafa orðið að skilja við hundinn sinn. Jakob bað hana að fá sér hund. Konan gerði það, tók gleði sína og svo fór að Jakob fékk sér einnig hund. Gengu þeir saman daglega mörg ár. Þetta vakti athygli. Jakob fékk viðurnefnið Hunda-Kobbi og varð formaður Félags hundavina. Félagið vann að því að aflétta hundabanninu. Einföld rök félagsins voru þau að hundurinn hefði ætíð verið besti vinur mannsins. Vannst málið með friði sem kunnugt er.
Einn stofusjúklinga Jakobs, sem var kennslukona, fékk að taka upp á segulband þrjá dáleiðslutíma til að hlusta á heima milli funda. Að honum látnum óskaði konan eftir því að fleiri mættu njóta og lánaði Dáleiðslufélaginu upptökurnar.Þær voru vissulega gerðar með ófullkomnum tækjum en sæmilega tókst að hreinsa þær og hljóðdiskur er til með þessu efni er gefur glögga mynd af rödd Jakobs og vinnuaðferð. Þótt Jakob helgaði sig fyrst og fremst hinni klassísku dáleiðslu ættaðri frá Þýskalandi, er vinnan sannarlega íslensk. Eftir vandaða slökun talaði Jakob í fáeinum setningum um vellíðan, ró, stillu í huganum innst inni, blæjalogn, veðurblíðu. Myndir sem hvert barn þekkir og framkalla frið, ró og öryggi.
Að síðustu eru brot úr minningargreinum nemenda Jakobs. Magnús Skúlason læknir skrifaði: ,,Yfir Jakobi var hljóðlát heimspekileg ró og hlýleg alvörugefni. Hann var grandvar, nærgætinn og bar virðingu fyrir tilfinningum annarra.
Eitt sinn sem oftar impraði ég á því að nauðsynlegt væri að vitrir menn létu ekki alla sína andagift líða til lofts í viðtölum einum, heldur festu slíkt á blað framtíðinni til þroska. Þá sagðist Jakob raunar líta svo á að hugir og sálir mannanna þyrftu alls ekki að vera síðri til skrásetningar en pappír og bókfell, gætu haft þar varanleg áhrif og átt langt líf fyrir höndum.
Halldóra Ólafsdóttir læknir: ,,Hógvær maður, rólegur í fasi, hlýlegur og talaði lágt, en athugull með afbrigðum og hafði góða kímnigáfu. Allt framapot var honum víðsfjarri. Allur hans metnaður lá í störfum hans með sjúklingum og á seinni árum við að leiðbeina og kenna fagfólki.”
Salbjörg Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur: ,, Persóna Jakobs og einlæg trú á möguleikum dáleiðslu hefur án efa átt þátt í því að fagfólk laðaðist að honum og þyrsti í að fá hlutdeid í þekkingu hans. Dáleiðslufélag Íslands er félag heilbrigðisstétta og hafði Jakob mikinn metnað til að það yrði að veruleika. Hann var heiðursfélagi þess og mun ávallt verða minnst sem frumkvöðuls sem var boðinn og búinn að gefa af sér og þekkingu sinni.”
Ingólfur S. Sveinsson,
Fyrsti formaður Dáleiðslufélags Íslands.