Dáleiðslufélag Íslands var stofnað 21. maí 2001, en þá þegar var löng saga um notkun daleiðslu í heilbrigðisvísindum á Íslandi. Helsti áhrifavaldur þar er Jakob Valdimar Jónasson geðlæknir sem kynntist notkun dáleiðslu í læknanámi sínu í Sviþjóð.
Jakob fór fyrst til Austurríkis á námskeið í dáleiðslu hjá Þjóðverja að nafni Schatzing 1964 en 1968 tók hann tveggja mánaða þjálfunarnám í dáleiðslu á Polyklinik für Psykoterapie í Mainz í Þýskalandi hjá prófessor Dietrich Langen.
Jakob byrjað að kynna dáleiðslu til lækninga árið 1969 á Kleppsspítala og um 1980 voru fáeinir farnir að prófa að nota dáleiðslu og fengu þá handleiðslu hjá honum.
Árið 1984 kom Hörður Þorgilsson, sálfræðingur frá námi í Bandaríkjunum sem hafði kynnst fræðum Miltons Eriksons og sagði sögur um óvenjulegar aðferðir hans.
Um 1990 hóf Jakob að halda regluleg námskeið fyrir starfsfólk í geðheilbrigðisþjónustu. Var reynt að stofna dáleiðslufélag sem þó starfaði takmarkað. Allt snerist í kringum Jakob. Hann hélt einfaldlega áfram að kenna áhugasömum nemendum.
Árið 1990 fór hópur á alþjóðlegt dáleiðsluþing til Konstans við Bodenvatnið í Þýskalandi. Var Jakob með í för sem einskonar óformlegur fararstjóri og einnigí hliðstæðri námsferð til Hamborgar 1994.
Nokkir fóru til Fönix í Arizona í formlegt nám í dáleiðslu við Milton Erickson stofnunina og á þing sem sú stofnun heldur annað hvert ár til kynningar á flestum formum meðferðar í sálfræði og geðlækningum.
Stjörnur af þessum þingum komu hingað og víkkaði það sjóndeildarhringinn. Ernest L. Rossi hélt fjölsótt fjögurra daga námskeið 1992 og kenndi m.a. endurinnrömmun minninga. Lars-Eric Uneståhl kynnti aðferðir til að þjálfa og leiðbeina íþróttamönnum. Michael D. Yapko hélt þrjú námskeið árin 1998, 2000 og 2002, öll mjög vel sótt.
Þannig fjölgaði fólki sem fékk áhuga á að nota dáleiðslu í vinnu sinni. Í þeim hópi voru sálfræðingar, félagsráðgjafar, læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, ljósmæður og fleiri.
Á áttræðisafmæli Jakobs árið 2000 fékk hann að gjöf skjal með undirritun fimmtán nemenda.Var þar heitstrenging undirritaðra að vinna að framgangi dáleiðslu til lækninga á Íslandi. Skjal þetta varð síðar efnislega stefnuyfirlýsing Dáleiðslufélags Íslands .
Dáleiðslufélag Íslands var svo formlega stofnað í maí 2001 með fyrrnefnda stefnu. Einnig skyldi það halda utan um námskeiðahald, fundi, fræðsluefni og annað sem einstaklingar höfðu annast áður. Félagið hefur fimm manna stjórn og félagar hafa verið um 60.
Fyrsti formaður félagsins var Ingólfur Sveinsson geðlæknir. Eftir það var formennska svo í höndum sálfræðinga. Fyrstur þeirra var Hörður Þorgilsson, svo Anna Valdimarsdóttir, en núverandi formaður er Hannes Björnsson.