Nú liður að degi dáleiðslunnar sem ætíð er haldinn í nánd við fæðingardag Jakobs Jónassonar sem er 28. október.
Að þessu sinni er dagur dáleiðslunnar haldinn föstudaginn 31. október í salnum hjá Sálfræðistofunni Höfðabakka sem er hér: https://www.salfraedistofan.is/um-okkur/ og hefst kl. 13.00. Þátttaka er ókeypis en vinsamlegast tilkynnið ykkur fyrirfram á netfangið ritari@dfi.is svo að hægt sé að áætla veitingar.
Á síðasta aðalfundi var lögum breytt og í framhaldinu sett viðmið um það hverjir gætu verið í félaginu með fulla aðild eða með aukaaðild. Félagið er því opnara en áður. Einnig voru kröfur um áframhaldandi fulla aðild skilgreindar. Ætlast er til þess að félagsmenn sitji siðanámskeið og stundi símenntun líkt og fram kemur á heimasíðu félagsins.
Á þessum Degi dáleiðslunnar mun formaður vera með styttri útgáfu af kynningu sem í tvígang var kynnt hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, en ekki náðist næg þátttaka til að af yrði. Kynningin er um 45 mínútur og að henni lokinni verða veitingar og umræður. Saga dáleiðslu er rakin og hvernig dáleiðslan hefur verið samofin sumum heilbrigðisvísindum allt frá upphafi. Skoðað er hvað dáleiðsla er og hvað dáleiðsla er ekki. Greint er frá helstu dáleiðslufélögum hérlendis og erlendis og þeim aðilum sem kynna og kenna dáleiðslu. Mjög áhugaverðar niðurstöður úr nýlegum rannsóknum um áhrif dáleiðslu eru kynntar. Loks er kynnt hvað er framundan hjá Dáleiðslufélagi Íslands á næsta starfsári, en á því ári verða liðin 25 ár frá stofnun félagsins 21. maí 2001.