Opnum dyr (Opening doors) er heitið á veglegri afmælisráðstefnu Dáleiðslufélags Íslands sem verður orðinn 25 ára gamall félagsskapur í lok maí 2026.
Fyrirlesarar frá öllum Norðurlönum og víðar að hafa boðað komu sína og ef áhugi er fyrir hendi þá verða þau jafnframt með vinnustofur eftir ráðstefnuna.
Aðalfyrirlesari hátíðarinnar verður Ólafur Pálsson prófessor emerítus við læknadeild Chapel Hill háskólans í Norður Karólínu fylki en hann er nýfluttur heim. Nánari upplýsingar um hann er að finna á upplýsingasíðu ráðstefnunnar sem er aftast á heimasíðu félagsins. Það er mikill fengur fyrir félagið að fá hann til að kynna sitt mikla starf um mikilvægi dáleiðslu í meðferð.
Aðrir fyrirlesarar eru einnig vel þekktir í heimi dáleiðslunnar og þess hefur verið gætt að velja aðila sem fjalla um mjög vítt svið dáleiðslu og eru fyrirlestrarnir bæði upplýsandi, fróðlegir og mjög svo hagnýtir.
Ráðstefnuvettvangurinn er Norræna húsið og pláss því takmarkað. Alþjóðlegar auglýsingar fara af stað í janúar og við gerum ráð fyrir að ráðstefnan verði upp bókuð snemma á árinu. Verð fyrir íslenska þáttttakendur er 35 þúsund krónur og skráning fer fram á netfanginu ritari@dfi.is
Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast dáleiðslu í heilbrigðisvísindum og eru allir aðilar sem gætu verið gjaldgengir í Dáleiðslufélag Íslands hvattir til að mæta. Sömuleiðis og eftri atvikum aðrir aðilar sem gætu haft gagn af þeirri innsýn sem þessi fræði veita í manneskjuna.
Allar nánari upplýsingar eru á aftasta flipa heimasíðu félagsins.