Félagsfundur 27. nóvember

Síðasti félagsfundur starfsársins verður 27. nóvember. Randi Abrahamsen mætir gegnum Zoom og kynnir fyrirhugað grunnnámskeið í dáleiðslu fyrir fagfólk sem verður haldið 14-16. febrúar næstkomandi.

Randi hefur verið kjörin næsti forseti Evrópska Dáleiðslufélagsins (European Hypnosis Society) og hefur undanfarna áratugi lagt mikið af mörkum til rannsókna og fræðslu um dáleiðslu.

Grunnnámskeið í klínískri dáleiðslu

25 klukkustundir (3 x 8 kennslustundir og 2 x 30 mínútna handleiðsla á netinu). Námskeiðið samanstendur af fræðslu, dæmum úr meðferð (clinical cases) og dáleiðsluæfingum fyrir alla þátttakendur ásamt gagnlegum æfingum þar sem þátttakendur æfa sig hver á öðrum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur myndi hópa eftir námskeiðið til að halda áfram að æfa sig og geta sótt handleiðslu til Randi gegnum Zoom.

Markmið námskeiðsins

 Að þátttakendur:

  • öðlist þekkingu á skilgreiningum dáleiðslu, rými sem hentar dáleiðslu, notkunarsviðum dáleiðslu, siðareglum, frábendingum frá dáleiðslu, ágripi af sögu dáleiðslunnar, dáleiðslunæmi, skynjunaraðferðum, taugalífeðlisfræðilegum bakgrunni dáleiðslunnar.
  • þekki klínískan stuðning um gagnsemi dáleiðslu og taugalífeðlisfræðilegan bakgrunn verkjastillingar með dáleiðslu.
  • geti nýtt sér þekkingu sína til að leiðrétta goðsagnir og fordóma varðandi dáleiðslu.
  • geti myndað gott samband við skjólstæðinga og útbúið ákjósanlegt umhverfi fyrir dáleiðsluna.
  • kunni að aðlaga raddblæ og tileinka sér dáleiðandi málfar sem stuðlar að dáleiðsluástandi.
  • kunni að byggja upp dáleiðsluferlið, að nota lykilorð til að akkera og undirstrika styrkleika.
  • tileinki sér fjölbreytt orðalag í innleiðingu.
  • læri aðferðir fylltar leikgleði við meðferð barna.
  • læri aðferðir til að nota dáleiðslu við verkjastillingu.

Námskeiðið kostar 135 þúsund krónur og er fjöldi þátttakenda takmarkaður. Skráning er hjá ritari@dfi.is

Dagskrá:

Dagur 1. Föstudagur 14. febrúar 2025

Randi og þátttakendur kynna sig. Væntingar þátttakenda til dáleiðslu.

Kennslumarkmið:

Hvað er dáleiðsla? Fordómar og goðsagnir, fyrirbærið dáleiðsla, dáleiðslunæmi, skynjunaraðferðir, notkun dáleiðslumálfars. Rými sem hentar dáleiðslu, stutt söguágrip um dáleiðslu, siðfræði í dáleiðslu og frábendingar.

Dagskrá:

Kynning á dáleiðslu með sýnikennslu og æfingum sem leggja áherslu á innsæi og viðtalstækni. Í gegnum æfingar sem beina sjónum að styrkleikum skjólstæðinga lærir þátttakandi að framkalla dáleiðsluástand af öryggi. Þátttakendur munu æfa mismunandi dáleiðsluaðferðir í smærri hópum. Í byrjun verða notuð handrit við dáleiðslu.

Dagur 2. Laugardagur 15. febrúar 2025

Kennslumarkmið:

Kynning á taugalífeðlisfræðilegum bakgrunni dáleiðslunnar.

Dagskrá:

Framhald á sýnikennslu og æfingum með áherslu á að efla styrkleika skjólstæðings til að ráða við vandamál sín, til dæmis að kvíða fyrir sársaukafullum aðgerðum. Efling styrkleika.

Mismunandi aðferðir til að innleiða dáleiðslu og dýpka dáleiðslu.

Aðferðir fylltar leikgleði fyrir dáleiðslu barna.

Dagur 3. Sunnudagur 16. febrúar 2025

Kennslumarkmið:

Yfirlit um gagnsemi dáleiðslu til klínískra nota. Kenning um dáleiðslu við verkjastillingu.

Dagskrá:

Framhald á sýnikennslu og æfingum þar sem unnið er með tvo mismunandi hluta innri togstreitu (hugrakka hlutann og kvíðahlutann).

Kynning á verkjastillandi dáleiðslu.

Námskeiðinu lýkur með leiðbeiningum um hvernig þátttakendur geta aðlagað notkun dáleiðslu innan síns sérsviðs.

Þessi færsla var birt undir Fréttir, Fundir, Fyrirlestrar, Námskeið. Bókamerkja beinan tengil.