Dáleiðsla

Dáleiðsla hefur verið skilgreind sem innleiðing sannfæringar (William Kroger, M.D.).

Við dáleiðslu verður breyting á vitundarástandi skjólstæðingsins því einbeiting og sefnæmi eflist. Af þessu leiðir að viðkomandi á auðveldara með að tileinka sér ný og breytt viðhorf og breyta hegðunarmunstri sínu. Dæmi um slíka viðhorfsbreytingu er þegar upp lýkst að ekki er sjálfgefið að atburðir fortíðar ráði öllu um atburðarrás nútíðar og framtíðar. Með nýjum viðhorfum og sannfæringu opnast sýn á möguleikana, leiðina út úr vandanum.

Dáleiðsla felur í sér notkun svokallaðra sefjana sem gefnar eru í kjölfar innleiðslu og einkennist oft af góðri slökun, einbeitingu og innlifun. Sefjanirnar snúa að því að upplifa breytingar á skyni, skynjun, hugsunum og hegðun. Flestir upplifa dáleiðslu sem ákaflega þægilega.

Dáleiðsla er jafnan ekki skilgreind sem sjálfstæð meðferð, henni er frekar hægt að lýsa sem aðferð eða tækni sem nýtist í annarri og heildstæðari meðferð.

Þótt yfir dáleiðslu hvíli oft mikil dulúð og hún sé á stundum kynnt sem töfralausn þá er raunin sú að hún nýtist vel í meðferð margs konar vandamála, svo sem við kvíða, depurð, sársauka, ýmiss konar ávana, meltingarkvillum eins og iðraólgu, auk annars.

Einungis þeir sem hafa til þess þjálfun og full réttindi  eiga að nota dáleiðslu, sjá nánar undir Hvernig vel ég meðferðaraðila?