Á Íslandi starfa 35 heilbrigðisstéttir með lögverndað starfssvið. Við val á meðferðaraðila dáleiðslu þarf að athuga hvort viðkomandi uppfylli þær kröfur, um hæfni í starfi, sem embætti Landlæknis gerir til heilbrigðisstarfsfólks.
Ábyrgir meðferðaraðilar hafa siðareglur sinnar starfsstétta að leiðarljósi, en siðareglur útlista þær kröfur sem gera þarf til góðra starfshátta; heilinda í starfi, siðferðilegrar breytni og faglegrar hæfni. Frumskilyrði ábyrgs meðferðaraðila er að virða í öllu velferð og mannhelgi skjólstæðingsins.
Allir félagsmenn í Dáleiðslufélagi Íslands hafa langa háskólamenntun að baki og hafa hlotið löggildingu innan einhverra þeirra heilbrigðisstétta sem fást við að færa líðan fólks til betri vegar. Félagsmenn í Dáleiðslufélagi Íslands hlíta jafnframt siðareglum Alþjóðasamtaka um dáleiðslu ,The International Society of Hypnosis‘ (ISH).
Þegar kemur að vali á meðferðaraðila dáleiðslu er því brýnt að grennslast sé fyrir um hvort viðkomandi sé handhafi tilskilinna réttinda í sinni starfsgrein. Ganga þarf úr skugga um að hann hafi lokið formlega viðurkenndu sérfræðinámi frá viðurkenndri menntastofnun á háskólastigi. Hann þarf jafnframt að hafa hlotið viðhlítandi handleiðslu og starfsþjálfun í sinni sérgrein.
Leita skal svara við eftirfarandi spurningum:
Lauk meðferðaraðilinn námi frá viðurkenndum háskóla eða menntastofnun?
Er hann handhafi starfsleyfis frá landlæknisembættinu?
Hefur hann hlotið góða þjálfun og handleiðslu?
Er hann félagi í viðurkenndu fagfélagi heilbrigðisstéttar, til dæmis Sálfræðingafélagi Íslands eða Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eða öðru fagfélagi heilbrigðisstétta?
Hefur hann skuldbundið sig til að starfa samkvæmt siðareglum starfsgreinar sinnar og siðareglum fagfélaga á sviði dáleiðslu?
Ef upp koma álitamál vegna starfshátta meðferðaraðilans er þá hægt að leita til siðanefndar hjá fagfélagi viðkomandi?
Hefur meðferðaraðilinn leitast við að viðhalda þekkingu sinni til samræmis við símenntunarkröfur á hverju tíma?